Fögnum umræðunni um skólamál!

Það var löngu kominn tími til að einhver tæki af skarið og opnaði á umræðuna varðandi stöðuna innan veggja menntastofnana í landinu. Takk Sigrún Ólöf skólastjóri Hörðuvallaskóla fyrir að vera sá fagaðili sem það gerði.

Við vitum það öll sem störfum í þessum geira að ástandið hefur farið versnandi á undanförnum árum en ástæðurnar fyrir því eru bæði margar og fjölbreyttar sem hafa þar áhrif. Ef ekki er opnað á umræðuna og steinum velt við þá festumst við í þessum fasa og sökkvum enn dýpra þar til ekki verður ráðið neitt við neitt. Við þurfum að sjá viðhorfsbreytingu í samfélaginu okkar hvað varðar kennarastéttina. Það er alls ekki eðlilegt að eiga orðið erfitt með að segja frá því með stolti að maður sé kennari eða stjórnandi í skóla.

Ég þekki það á eigin skinni hvernig það er að standa frammi fyrir nemendum sem koma illa fram við kennara og sýna ógnandi hegðun, segja og gera það sem þeim sýnist, kalla þá öllum illum nöfnum m.a. barnaníðinga, perra, helvítis tussu o.fl. Kennurum hefur verið hótað barsmíðum og jafnvel hafa nemendur leitað uppi upplýsingar um fjölskyldu þeirra og haft í hótunum við þá sem tengist börnum þeirra. Þetta er auðvitað alls ekki í lagi og við líðum ekki framkomu sem þessa en á sama tíma og við beitum þeim verkfærum sem við höfum innan skólanna, þ.e. förum eftir agaferlum, þá er úrræðaleysi að gera út af við okkur í stærri málum. Raunveruleg staða er því miður sú að það er ósköp lítið og máttlaust batterí sem grípur okkur þegar við erum að glíma við stór og flókin mál. Það má nefnilega aldrei kosta neitt!

Skólinn á að vera griðastaður nemenda og þar á að ríkja friður og ró með „eðlilegum“ pústrum inn á milli. Bæði nemendum og starfsfólki á að líða vel í skólanum og finna til öryggis. Skólinn er fyrst og fremst menntastofnun, ekki uppeldis- eða meðferðastofnun. Kennarar eiga að hafa næði til að mennta börnin okkar, ýta undir vöxt þeirra og þroska og aðstoða þau við að ná persónulegum árangri. Það á enginn að þurfa að hafa áhyggjur eða að finna til kvíða fyrir deginum sem framundan er í skólanum, hvorki nemendum, starfsfólki né foreldrum/forsjárfólki.

Jákvætt samstarf og traust er lykillinn af farsælu og faglegu lærdómssamfélagi. Við þurfum öll að vinna saman þvert á stig og með foreldrum/forsjárfólki. Kennarar eru sérfræðingar á sínu sviði og eru alla jafna vel færir til þeirra starfa sem krafist er af þeim. Foreldrar/forsjárfólk þarf að treysta því að kennarar sinni sínum skyldum gagnvart börnum þeirra eins og lög gera ráð fyrir hvað varðar menntun og daglega leiðsögn á skólatíma. Uppeldishlutverkið er að mestu leyti í höndum foreldra/forsjárfólks og það er á ábyrgð þeirra að fylgjast með námi barna sinna og halda utan um það.

Það skiptir gríðarlega miklu máli í öllu þessu hvernig talað er um skólann og starfsfólk skóla heima við eldhúsborðið. Ef við höfum ekkert gott og jákvætt að segja þá skulum við frekar þegja. Öll mál sem upp geta komið eru til þess að leysa þau og til þess að það náist á farsælan hátt þarf jákvæð samvinna að vera til staðar og hlusta þarf á allar hliðar máls áður en dómur er kveðinn.

Við þurfum að segja hlutina eins og þeir eru og hætta að tala undir rós því það er svo margt sem þarf að bæta í starfsumhverfi kennara sem hefur bein áhrif á það hvernig staðan er orðin í dag.

Vandinn sem við okkur blasir hvað varðar að ráða menntaða kennara til starfa í leikskólana er alls ekki nýr af nálinni, þetta hefur verið staðan í nokkuð mörg ár og nú er sama staða komin upp í grunnskólunum. Þetta er mjög dapurlegt þar sem starfið er bæði skemmtilegt og gefandi en á sama tíma krefjandi fyrir allt of lág laun þar sem menntun er ekki metin til launa. Kjarasamningsviðræður eru nú í gangi sem sér ekki fyrir endann á og eins og Sigrúnu Ólöf bendir á í grein sinni, þá er stéttin nú stödd í miðjum hvirfilbyl og það er spurning hvoru megin við komum út úr honum. Ég tek undir það með henni að það þurfi að ganga frá mannsæmandi kjarasamningi við alla kennara og skólastjórnendur landsins sem fyrst.

Raunveruleikinn filterslaus

Þetta kostar!

Hvernig eigum við að ná til eyrna þeirra sem hafa stjórnina þegar kemur að því sem skiptir okkur öll máli?

Ábyrgðin er okkar allra, foreldra/forsjáraðila, heilbrigðiskerfis, menntakerfis og samfélagsins eins og það leggur sig. Breyttir tímar, auðveldara aðgengi að ýmsu óæskilegu efni með þróun tækninnar hefur mikil áhrif á æskuna og mótun unga fólksins okkar. Grunn gildi og áherslur hafa samt sem áður ekki breyst. Við þurfum öll ást, umhyggju, væntumþykju, áheyrn, tilgang, skilning o.s.frv.

Við erum mörg ólík á svo margan hátt, pössum ekki í sama boxið og eigum heldur ekkert að gera það. En öll eigum við rétt á því að fá að blómstra út frá okkar eigin styrkleikum, áhuga og getu.

Í drauma heimi værum við öll jafnfætis, sama hvaðan við komum, hvaðan sem uppruni okkar er, hver svo sem okkar saga er. Við viljum að allir geti fundið til öryggis og að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar og geti fundið sér störf við hæfi. Það væri draumur ef allir ættu sterkt og gott tengslanet, að fólk gæti leitað til fjölskyldu sinnar og vina þegar á móti blæs. En raunveruleikinn er því miður ekki alveg svona svartur og hvítur.

Fólk, alls konar fólk, er duglegt að setja sig í dómarasæti og dæma bæði einstaklinga og hópa fólks. Þetta fólk lætur vel í sér heyra og þykist vita allt og betur en allir aðrir. Sumir telja sér trú um að þeir séu „með þetta“, að lausnin sé einhver einföld uppskrift sem allir eigi að fara eftir og tileinka sér og þá gangi allt að óskum fyrir alla.

Við vitum það flest að margt í kerfum okkar hér á landi er að virka illa, mjög illa, en vonandi samt eitthvað vel. Það hjálpar ekki að benda til allra átta og kenna hinum og þessum um. Við vitum að ef við leggjum saman styrk okkar allra þá getum við áorkað svo fáránlega miklu á stuttum tíma í þágu okkar allra. Við þurfum að hugsa fram á við, vera lausnamiðuð og hætta að hengja okkur á kjánalegar fullyrðingar og sjónarmið þeirra sem ekki eru á „gólfinu“! Það þarf ekki fleiri nefndir og ráð eða starfshópa sem ekki eru nú þegar til staðar, nýtum mannauðinn sem við höfum nú þegar og virkjum fólk til samstarfs.

Það er svo mikið talað um að það skorti ekki fjármuni í skólakerfið okkar t.d….. í alvöru! Hvaða útreikningar eru það eiginlega? Það segir sig sjálft að við verðum að gera svo miklu betur með ungdóminn okkar og mæta þeim með fjölbreyttum úrræðum sem henta hverjum og einum „núna“, ekki eftir eitt til þrjú ár, þar sem biðlistarnir eftir sérfræðiþjónustu lengjast dag frá degi. Það er líka hægt að mæta auknum vanda grunnskólabarna með því að auka þjónustu sérfræðinga innan skólakerfisins sem dregur m.a. úr flækjustigi foreldra/forsjáraðila. Og til lengri tíma litið, ef vel er hlúð að yngri kynslóðinni, verður það „ódýrara“ fyrir samfélagið í heild sinni. Í þessu fellst að mínu viti svokölluð „snemmtæk íhlutun“!!

Það á alls ekki að þurfa að berjast fyrir þessu, þetta eiga að vera mannréttindi og okkur öllum til heilla.

Styrkjum stoðirnar, byggjum ofaná góðan og styrkan grunn með markvissum og faglegum hætti.

Ég læt þetta duga að sinni, en ég eins og svo margir aðrir, hef sterkar skoðanir á þessum málum og brenn fyrir velferð fólksins í landinu og þá sérstaklega yngri kynslóðinni. Það væri auðvelt að skrifa langan pistil og henda fram alls konar hugmyndum um aðgerðir ýmiskonar sem gætu gagnast okkur, en ég læt það liggja í mínum huga enn sem komið er.

Höfundur er fyrst og fremst móðir, dóttir, eiginkona og vinkona. En er einnig grunn- og leikskólakennari, skólastjórnandi og náms- og starfsráðgjafi.

Þetta kemur okkur öllum við – Breytt starfsumhverfi kennara!

Það er okkur öllum ljóst að starfsumhverfi kennara hefur breyst heilmikið á síðustu árum. Margt ber að nefna því tengdu og ekki hefur almennilega verið unnið að þeirri þróun og innleiðingu sem til þarf svo að vel megi heppnast að mínu mati. Hafa þarf í huga að skólar eru menntastofnanir, ekki meðferðastofnanir, en stundum virðist vera litið til skólanna og þeirra sem þar starfa sem sérfræðinga í málefnum barna frá a-ö, en svo er ekki. Ef við hugum að starfsumhverfinu, þá er þar margt sem þarf að beina sjónum að með bættari árangur í huga, bæði hvað varðar nemendur, kennara og annað starfsfólk. Ég er þess fullviss að flestir kennarar hafi viljann til að gera ávallt sitt allra besta við að mæta þörfum nemenda sinna, uppruni þeirra og þjóðfélagsleg staða skiptir ekki máli hvað það varðar.

Það sem vantar þó upp á hér eru bjargráð, úrræði, leiðsögn og tími. Kennarar eru sérfræðingar, við getum öll verið sammála um það, en það þarf samt sem áður að styðja við þá og leiðbeina jafnt og þétt í takt við þá þróun sem á sér stað í þjóðfélaginu. Þessum þætti er illa sinnt og hér þurfum við að staldra við og leggja miklu meira af mörkum. Ég tel að einnig eigi að styrkja samvinnu við heimilin, foreldrar eiga að vera í góðu samstarfi við skólann varðandi barnið sitt og allir þurfa að vinna að sama marki, þ.e. að nemandanum/barninu líði sem best, nái að fóta sig og sjái árangur af námi sínu.

Ég finn vel fyrir kynslóðabilinu sem er til staðar þegar ég með minn bakgrunn, menntun, reynslu og þekkingu, lít yfir farinn veg og í mörgu er ég óttaleg risaeðla. En það er allt í lagi, við getum miðlað, frætt og lært eitthvað nýtt á hverjum degi samhliða, enda er það gott og gilt. Mannlegi þátturinn er samt sem áður alltaf til staðar og afar mikilvægt fyrir okkur að geta sett okkur í spor annarra, sýnt væntumþykju, samhygð og skilning eins langt og það nær. Margt af okkar unga fólki í dag sýnir ekki þessa hlið á sér og mér er brugðið að sjá og heyra samskipti milli þeirra oft á tíðum. Aga- og virðingarleysi er áberandi hjá mörgum börnum allt frá leikskólaaldri, þau geta verið hreint og beint dónaleg og hrokafull, gera bara það sem þeim sýnist og hafa neikvæð áhrif út í hópinn.

Þegar upp er staðið og staldrað við þá skulum við setja upp eitt lítið dæmi: Bekkur í unglingadeild grunnskóla, samtals 26 nemendur. Samsetningin er 80% Íslendingar og 20% af erlendum uppruna, aðflutt. Af þessum 21 nemenda sem eru Íslendingar eru:

  • þrír með greiningu um ADHD
  • tveir með greiningu um ADHD, kvíða og þunglyndi
  • þrír með dyslexíu
  • tveir á einhverfurófi og með greininguna ADHD og félagsfælni
  • einn nemandi er í skólaforðun
  • þrír nemendur glíma við neikvæðan aga.

Þetta eru 14 nemendur í þessum bekk sem þarf að funda reglulega með foreldrum eða forsjáraðilum og stuðningsteymi innan skólans og í einhverju tilfellum með stuðningsteymi sem nær út fyrir veggi skólans eins og frá barnavernd o.fl. Stundum er fundað tvisvar á önn, stundum á 6 vikna fresti, stundum á 3 vikna fresti o.s.frv. eins og gengur og þetta dæmi er mögulega ögn ýkt.

Nemendurnir sem eru af erlendum uppruna eru allir búnir að vera á Íslandi í innan við ár og sækja íslenskukennslu til kennara með áherslu á íslensku sem annað tungumál. Önnur fög eru kennd í bekk eins og samfélagsgreinar, náttúrugreinar, danska (flestir undanþegnir henni), enska, verkgreinar, íþróttir og sund.

Bakgrunnur þeirra er margs konar, upplifanir fjölbreyttar og staða þeirra illa þekkt. Oft tala þau ekki ensku og eru auðvitað bara rétt nýbyrjuð að læra íslenskuna. Þau eru óörugg, jafnvel hrædd, sorgmædd, eiga stutta fyrri skólagöngu að baki, hafa orðið fyrir áfalli eða áföllum í heimalöndum sínum. Sum eru jafnvel ekki með foreldrum sínum, forsjáraðili þeirra hér á landi er mögulega eldra systkini.

Í flestum grunnskólum landsins fara nemendur í unglingadeild í kennslu til sinna faggreinakennara, þ.e.a.s. það er ekki einn og sami kennarinn sem kennir öll fögin eins og tíðkast á yngri stigum. Nemendur fara á milli stofa til að sækja kennslu í hverju fagi fyrir sig hjá þeim kennara sem hefur sérhæft sig í greininni. Fyrir marga nemendur reynist þetta fyrirkomulag þeim erfitt, oftast venjast þeir þessu þó, en fyrir suma gerist það ekki, eða illa og seint. Það er alveg ljóst að þetta fyrirkomulag hentar alls ekki öllum vel og getur haft neikvæð áhrif á líðan og árangur.

Þessi mynd sem ég hef dregið upp hérna er líklega ýkt eins og áður segir en ég reikna með að flestir kennarar kannist þó við eitthvað keimlíkt.

Hér getum við leitt hugann að faglegri skuldbindingu kennara en hún er mikilvæg breyta þegar litið er til áhrifa þeirra á nemendur eins og hvað varðar hvatningu, árangur, viðhorfi til náms og að stunda skólann vel. Nauðsynlegt er að hver og einn fagaðili innan stéttarinnar sé meðvitaður um siðferðilegar skuldbindingar sínar í því mikilvæga starfi sem kennslan er. Siðferðilegar skuldbindingar fylgja því að verða kennari, m.a. snýst hún um faglega skuldbindingu sem felur meðal annars í sér að fylgja námsskrám, beita sér fyrir jafnrétti og stuðla að því að hafa jákvæð áhrif á líf nemenda. Þær dygðir sem er mikilvægt að sýna í verki m.a. til að verðskulda traust samfélagsins eru trúnaður, heilindi og heiðarleiki, án þeirra verða stoðirnar veikar. Í skuldbindingu felst innri hvatning, vilji kennarans til að efla sig í starfi og að skila frá sér sem bestum árangri öllum stundum. Talið er að til þess að kennarar finni til faglegrar skuldbindingar þurfi þeir á að halda sterkri sjálfsmynd, þekkja eigin getu, styrkleika sem veikleika.

Kraftur samstarfs á vinnustað getur verið mikill og nauðsynlegt er að kennarar átti sig á því að þeir eru ekki einir að störfum, stéttin þarf að standa saman, styrkja og styðja við hvort annað í starfi. Margt hefur breyst hvað varðar samstarf kennara frá því sem áður var, þegar þeir unnu oft einangraðir hver í sinni kennslustofu með sinn nemendahóp. Nú á dögum er talað um hina nýju fagmennsku en í henni felst mikil samvinna og miðlun þekkingar og felur hún einnig í sér að kennarar verði opnari fyrir áhrifum. Traust og heiðarleiki eru hugtök sem skipta gríðarlega miklu máli í störfum stéttarinnar, hverjum og einum ber skylda til að vanda sig í öllum samskiptum og samvinnu og grafa ekki undan heiðri eða mannorði samstarfsmanna sinna. Samstarf er þáttur sem að mínu mati skipar verulega stóran og mikilvægan sess innan ríkjandi menningar skóla.

Sá sem velur sér að mennta sig til kennara og fer svo að starfa sem slíkur þarf að vera gæddur mörgum og fjölbreyttum kostum og hæfileikum. Störf kennara krefjast mikils af honum og á síðustu misserum hefur starfið orðið æ flóknara og kröfuharðara. Ef skuldbinding við starfið á að vera öflug og sterk þarf að huga vel að allri umgjörð þess. Faglega skuldbundnir kennarar leitast við að þróa og þroska sig í starfi, eru tilbúnari til þátttöku starfsþróunar og leitast eftir samstarfi og samvinnu við samkennara og aðra hagsmunaaðila. Megintilgangur kennarastarfsins er ávallt sá að bæta árangur nemandans með öllum tiltækum leiðum sem í boði eru innan siðferðilegra marka.

Það þarf að taka höndum saman og styðja og styrkja það sem fyrir er og byggja svo ofan á það með markvissum og árangursmiðuðum sannreyndum hætti. Taka þarf tillit til þessa breytta starfsumhverfis og meta að nýju hvernig standa eigi að stuðningi við kennara með það að marki að hægt sé að ná utan um starfið í heild sinni ávallt með árangur í huga.

Kærleikskveðja,

Hjördís

Er kennarastarfið orðið að félags- og fjölskylduráðgjöf?

Margir kennarar og annað starfsfólk í grunnskólum finna svo um munar fyrir auknu álagi og meiri streitu í starfi en oft áður.

Hlutverk kennara er margþætt, en fyrst og fremst snýst það um að kenna nemendum skv. aðalnámskrá ýmiskonar námsgreinar þar sem markmiðið er að auka þekkingu, hæfni og leikni nemenda. Kennarar vinna að því að vekja og viðhalda áhuga nemenda á námi, veita þeim handleiðslu á sem fjölbreytilegastan hátt ásamt því að stuðla að góðum starfsanda og vinnufrið meðal nemenda.

Auk þess þarf að hlúa að hverjum og einum nemanda varðandi líðan, fylgjast vel með að allir blómstri á sem jákvæðastan hátt og bæti við sig þekkingu á öllum sviðum náms. Hlutverk umsjónarkennarans er skilgreint í aðalnámskrá (bls. 31) á eftirfarandi hátt: „Umsjónarkennari tekur öðrum starfsmönnum fremur ábyrgð á námi nemenda sinna, þroska þeirra, líðan og velferð. Umsjónarkennari leggur sig fram um að kynnast nemendum sínum sem best, foreldrum þeirra og aðstæðum. Hann vinnur náið með þeim kennurum sem kenna nemendum í hans umsjá, safnar saman upplýsingum og kemur þeim áleiðis innan skóla og til foreldra í þeim tilgangi að gera foreldrum kleift að taka þátt í ákvörðunum sem varða barn þeirra og skólastarfið. Umsjónarkennari gegnir lykilhlutverki í farsælu samstarfi heimila og skóla og er megintengiliður milli skóla og heimila“.

Upplifun margra kennara og starfsmanna í grunnskólum er að áskoranir eru fleiri, flóknari og stærri í sniðum en oft áður. Agi nemenda er í mörgum tilfellum ábótavant á marga ólíka vegu og birtingamyndin fjölbreytt. Virðing fyrir kennurum hefur farið hratt dvínandi, metnaður fyrir námi og námsleg geta nemenda eru breytur sem eru meira áberandi. Hatursorðræða, fordómar, markleysi og hegðun sem almennt er ekki viðurkennd meðal almennings er áhyggjuefni. Samfélagsmiðlar og snjalltækja notkun er ekki að hjálpa.

Stoðþjónusta grunnskólanna nær ekki utan um alla þá nemendur sem á námsaðstoð þurfa að halda og því miður þá er heimanámi, þá helst lestri, ekki eða illa sinnt á heimilum oft á tíðum. Þegar í ljós kemur að illa gengur hjá nemanda þá er alltaf spurt: „Hvað er skólinn að gera“? Einhverjir segja strax: „Skólinn er ekki að standa sig!“ Stundum er það að mörgu leyti rétt, því miður, enda er stakkurinn sniðinn svo þröngur að það eru komnar saumsprettur á allar hliðar þar sem við missum sjónar á einhverjum nemendum sem smjúga þar út.

Skólar fá ákveðna fjárúthlutun ár hvert sem fer m.a. eftir nemendafjölda við skólann og út frá ákveðnum greiningum sem falla undir fötlunarflokk. Það er ekki til neitt sem heitir viðbótarfjármagn miðað við þyngsl skóla t.d. miðað út frá fjölda nemenda sem koma frá öðrum löndum, nemendum með flókinn vanda, námslegan sem félagslegan o.s.frv. Kennarar og starfsfólk skóla bæta endalaust við sín störf og hlaupa hraðar. Stór hluti vinnutímans fer í fundarsetur, útfyllingu eyðublaða og matslista, símtöl, tölvupóstsendingar og leit að úrræðum til að mæta þörfum nemenda sem eru t.d. í bullandi skólaforðun.

Kennarar og starfsfólk skóla bera hagsmuni nemenda fyrir brjósti og vilja svo sannarlega leggja sig fram við að mæta öllum nemendum á þeirra forsendum og gera eins vel og það mögulega getur miðað við aðstæður. Kerfið er því miður mjög máttlaust og hægvirkt, úrræðin eru allt of fá og á meðan er spólað í hamstra hjóli.

Það á ekki að gera átak til að ná betur utan um batteríið, það á að auka fjármagn til kerfisins svo um munar, styrkja stoðirnar strax frá byrjun, ekki þegar allt er komið í óefni. Það verður að vanda til verka og huga mun betur að mannlega þættinum, vera fagleg og takast almennilega á við þetta mikilvæga hlutverk sem við öll berum ábyrgð á í sameiningu.

Nú er komið nóg, hættum að tala um hlutina, látum hendur standa fram úr ermum og bregðumst við svo eftir því sé tekið og það strax. Það er nauðsynlegt að halda í allt okkar góða fólk sem starfar með börnum og ungmennum, gerum allt sem í okkar valdi stendur til að gera starfsumhverfi þeirra lífvænlegt, við höfum ekki efni á því að missa það frá okkur til annarra starfa.

Virðingarfyllst,

Hjördís B. Gestsdóttir

Kennari, náms- og starfsráðgjafi og stjórnandi í grunnskóla

Mannlegi þátturinn má ekki gleymast

Í síðustu viku var birt viðtal við mig vegna líkamsárásar sem sonur minn varð fyrir algjörlega af tilefnislausu. Það var ekki auðveld ákvörðun að verða við beiðninni um viðtal en eftir að hafa ráðfært mig við nokkra vini og fagaðila, þá ákvað ég að láta slag standa. Ég vildi þó fyrst og fremst vekja athygli á þessum málaflokki þar sem svona hátterni hefur verið að aukast undanfarin misseri og unga fólkið okkar veit af þessu en segir fátt eða ekkert um atvikin. Fyrir mörgum eða flestum þeirra er þetta orðið eðlilegur partur af því sem getur átt sér stað í daglegu lífi.

Ég er þess fullviss að ekki rata öll svona mál inn á borð lögreglunnar enda ekki allir sem treysta sér með þau þangað. Í fréttinni umræddu var rætt við lögregluna um mál sem þessi og þar kemur fram að nokkuð er um svona tilefnislausar árásir, árásarmennirnir búa sér oft til ástæður eða einhver orðrómur hefur farið af stað sem enginn fótur er fyrir. Komið var inn á að stundum verði ólögráða einstaklingar fyrir árásum sem þessum og að þá sé unnið með málið í samstarfi við foreldra og barnavernd. 

Það sem ég vildi og reyndi í viðtalinu að koma á framfæri en klippt var út, í sambandi við mál af þessu tagi voru m.a. vangaveltur um það hvernig unnið er í málum þeirra einstaklinga sem eru orðnir lögráða, sérstaklega þeim yngstu? Hvernig aðstoð er í boði fyrir þá og hver gefur þeim upplýsingar um hvert þeir geta leitað? Hvað felur verklag lögreglunnar í sér í svona málum fyrir 18 ára og eldri brotaþola? Hvað með aðstandendur, foreldra/forráðamenn, er eitthvað kerfi sem grípur þá? Þarf ekki að huga að aðstandendum gerenda og sjálfum gerendum hvað varðar ráðgjöf og slíkt? Þarf fólk að finna út úr öllu sjálft eða á lögreglan að benda á úrræði fyrir það, hvert það getur leitað o.s.frv.? Barnavernd á að vera til verndar og aðstoðar til 18 ára aldurs en svo tekur bara ekkert við, engin brú, öllum hent í djúpu laugina!

Eins og allir vita þá er mannfólkið misjafnt eins og það er margt og aðstæður þeirra ólíkar. Sumir geta tekist á við áföllin að mestu leyti upp á eigin spýtur með aðstoð fjölskyldu og vina. Aðrir hafa hvorki burði, getu né bakland sem stutt geta við þá þegar áföllin gerast.

Ég hef rætt þessar hliðar við nokkuð marga og þar á meðal fagfólk á ýmsum sviðum og allir svara í sömu mynt, að það er ekkert og enginn sem virðist grípa þetta fólk. 

Það segir sig sjálft að það þarf að skoða hlutina frá mörgum hliðum, efla þjónustuna, skýra verkferla og auðvelda fólki aðgengi að aðstoð fagaðila, kerfið þarf að vera skilvirkt og augljóst. 

Það er svo einkennilegt að upplifa það að þegar barn verður 18 ára að þá eigi það að kunna og skilja allt sjálft. Á núll einni er barnið orðið fullorðið og það fylgja engar ,,leiðbeiningar” ef svo má að orði komast. Kannski er það ein ástæða þess að sumir veigra sér við að leggja fram kæru vegna líkamsárásar enda er enginn sem útskýrir neitt nema þú spyrjir nógu margra spurninga. Aðstæður fólks eru svo rosalega misjafnar, sumir hafa bara alls engann sem getur leiðbeint þeim og aðstoðað. Er þetta eitthvað skoðað yfir höfuð? Við verðum í sameiningu að gæta að hvort öðru og muna að við erum öll manneskjur og við skiptum öll jafn miklu máli!

Ég vona svo sannarlega að einhver grípi boltann og skoði þessi mál ofan í kjölinn og að svör fáist sem eru skýr og skiljanleg fyrir alla. Við berum öll ábyrgð á einn eða annan hátt, þöggun er ekki af hinu góða. Við þurfum að standa saman, öðruvísi bætum við ekki neitt.

Takk fyrir mig,

Hjördís (fyrst og fremst móðir og svo allt hitt)

Kennarar sem fagstétt og fagleg skuldbinding í starfi

Pistill birtur á vef Kennarasambands Íslands í dag 10. desember 2021

Kæri félagsmaður,

hvort sem þú starfar í leik-, grunn-, framhalds- eða tónlistarskóla þá er það hlutverk mitt sem næsta kjörna varaformanns KÍ ásamt nýkjörnum formanni og öðru góðu starfsfólki Kennarasambands Íslands að gæta þinna hagsmuna á marga ólíka vegu. Allir kennarar og stjórnendur eru mínir stéttarfélagar og við erum ein heild. Vellíðan í starfi skiptir sköpum fyrir gæði náms og árangur og því ber okkur að hlúa sérstaklega að því.

Kennarastarfið er margslungið og því fylgir mikil ábyrgð. Fagleg skuldbinding býr í kennurum okkar upp til hópa og það er eitt af því sem er mikilvægt að efla enn frekar og varðveita. Þær dygðir sem nauðsynlegt er að sýna í verki m.a. til að verðskulda traust samfélagsins er trúnaður, heilindi og heiðarleiki, án þeirra verða stoðirnar veikar. Í skuldbindingunni felst einnig innri hvatning, viljinn til að efla sig í starfi og skila frá sér sem bestum árangri öllum stundum. Til þess að kennarar finni til faglegrar skuldbindingar þurfa þeir á sterkri sjálfsmynd að halda, þekkja eigin getu, styrkleika sem og veikleika. Þeir þurfa líka að finna til hvers er ætlast af þeim og hafa skýra sýn og stefnu í starfi sínu. Hér beinast spjótin að leiðtogum stéttarinnar þar sem þeim ber að stuðla að því að skapa kennurum tækifæri til þess að efla sig enn frekar í starfi á fjölbreyttan hátt, hlusta á óskir þeirra og væntingar og hjálpa til við að greiða leið þeirra.

Kraftur samstarfs á vinnustað getur verið mikill og nauðsynlegt er að kennarar átti sig á því að þeir eru ekki einir að störfum, stéttin þarf að standa saman, styrkja og styðja við hvort annað í starfi. Margt hefur breyst hvað varðar samstarf kennara frá því sem áður var, þegar þeir unnu oft einangraðir hver í sinni kennslustofu með sinn nemendahóp. Nú á dögum er talað um hina nýju fagmennsku en í henni felst mikil samvinna og miðlun þekkingar og felur hún einnig í sér að kennarar verði opnari fyrir áhrifum. Traust og heiðarleiki eru hugtök sem skipta gríðarlega miklu máli í störfum stéttarinnar, hverjum og einum ber skylda til að vanda sig í öllum samskiptum og samvinnu og grafa ekki undan heiðri eða mannorði samstarfsmanna sinna. Samstarf, samtal og samvirkni er það sem ég vil sjá enn meira af í störfum okkar, á vettvangi og milli skólastiga og skólagerða, fyrir því vil ég beita mér.

Þegar kennarastarfið og skuldbinding þess er ígrundað má sjá að í því felast margar breytur. Sá sem velur sér að mennta sig til kennara og fer svo að starfa sem slíkur þarf að vera gæddur mörgum og fjölbreyttum kostum og hæfileikum. Störf kennara krefjast mikils af honum og á síðustu misserum hefur starfið orðið æ flóknara og kröfuharðara. Ef skuldbinding við starfið á að vera öflug og sterk þarf að huga vel að allri umgjörð þess. Faglega skuldbundnir kennarar leitast við að þróa og þroska sig í starfi, eru tilbúnari til þátttöku starfsþróunar og leitast eftir samstarfi og samvinnu við samkennara og aðra hagsmunaaðila. Megintilgangur kennarastarfsins er ávallt sá að bæta árangur nemandans með öllum tiltækum leiðum sem í boði eru innan siðferðilegra marka. Við störfum undir formerkjum faglegs lærdómssamfélags og menntunar fyrir alla og okkur ber að finna leiðir í sameiningu til þess að geta staðið stolt undir því sem ein heild. Menntastefna til ársins 2030 hefur verið lögð fram og nú reynir á að innleiðing hennar fari fram með faglegum hætti í samvinnu og sátt við okkur öll. Hér skiptir máli að sameinast um það verkefni og vanda til verka svo okkur takist vel til. Stuðningur forystunnar þarf að vera til staðar og sameiginlegur skilningur og sýn okkar allra á áherslur stefnunnar í heild.

Ég er fyrst og fremst kennari og það sem að ofan er ritað á við um mig sjálfa líkt og ykkur hin burt séð frá því hvort ég starfi eins og er sem kennari, náms- og starfsráðgjafi, stjórnandi eða sem tilvonandi varaformaður Kennarasambands Íslands.

Eins og áður hefur komið fram í mínum skrifum þá er ég afar stolt af minni fagstétt og ég tel hana gera kraftaverk alla daga. Mannauðurinn er mikill og dýrmætur og nauðsynlegt að við hlúum vel að öllum og sköpum gott og öruggt starfsumhverfi. Ánægja og vellíðan starfsmanna skilar sér í bættari skólabrag heilt yfir og hefur það bein áhrif á vellíðan og árangur nemenda, þetta hafa niðurstöður ýmissa rannsókna stutt við.

Varaformaður KÍ starfar í nánu samstarfi við formann félagsins þar sem þeir leiða saman hesta sína í öflugu samstarfi við aðildarfélögin átta. Ég tel að með faglegum og sveigjanlegum stjórnunarháttum, heiðarlegu og opnu samtali ásamt lausnamiðuðum nálgunum og valdeflingu kennara náum við árangri í sameiningu.

Ég tel mig hafa það sem þarf til fyrir embætti varaformanns KÍ þar sem ég mun leiða þessa öflugu fylkingu við hlið nýkjörins formanns hennar. Ef ég verð fyrir valinu og mér treyst fyrir þessu stóra og mikilvæga verkefni mun ég leggja mitt af mörkum við að vinna ötullega að hagsmunum félagsmanna aðildarfélaganna allra í góðu og öflugu samstarfi. Ég efast ekki um að metnaður minn og virkni í starfi muni nýtast og hjálpa mér að vera ykkur öllum, kæru félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands, góður og kröftugur stuðningur.

Virðingarfyllst,

Hjördís B. Gestsdóttir

Ég vil verða næsti varaformaður Kennarsambands Íslands

Pistill birtur á vef KÍ mánudaginn 6. desember 2021

Í dag er komið að því að kennarar geri upp hug sinn um hver skuli vera næsti varaformaður Kennarasambands Íslands.

Valið stendur á milli mín, Hjördísar B. Gestsdóttur og sjö annarra frambærilegra frambjóðenda sem allir hafa brennandi áhuga á menntamálum og vilja leggja sitt af mörkum við að leiða fagstétt kennara í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistaskólum landsins. Ég leitast eftir ykkar stuðningi í kosningum til varaformanns KÍ sem fram fara dagana 6. – 13. desember og vil ég hvetja alla til að nýta kosningarétt sinn.

Starfsferill minn hófst um aldamótin þegar ég fyrst hóf störf með börnum í leikskóla. Áður hafði ég, sem ung stúlka, mikið verið að passa börn og réð mig í vist á sumrin til að líta eftir litlum krílum. Í upphafi stóð ekki til að staldra lengi við á þeim vettvangi, en núna tæplega 22 árum síðar starfa ég enn með börnum og ungmennum. Ég hef brennandi áhuga á öllu sem snýr að menntamálum og hef jafnt og þétt bætt við mig þekkingu. Stundaði fyrst nám í leikskóla- og grunnskólakennarafræðum, bætti við mig námi í náms- og starfsráðgjöf og lauk nýlega námi í stjórnun og forystu í faglegu lærdómssamfélagi. Ég hef í gegnum störf mín á fjölbreyttum vettvangi átt farsælt samstarf við ólíka einstaklinga og fagfólk á breiðu sviði kennslufræðinnar og tekið þátt í fjölmörgum stærri sem smærri verkefnum tengdum skólaþróun og félagsstörfum, sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi. Reynsla mín við nám og störf undanfarin ár hefur leitt mig að þeirri niðurstöðu að ég gæti látið gott af mér leiða sem ein af forystumönnum Kennarasambands Íslands og því leita ég eftir ykkar stuðningi.

Undanfarna daga og vikur hef ég átt spjall við kennara og aðra sérfræðinga sem starfa í skólum landsins um málefni sem brenna helst á þeim þegar litið er til menntamála. Það hefur verið gefandi og áhugavert að hlusta á það sem fram hefur komið í þessum samtölum þar sem kennarar hafa ekki legið á skoðunum sínum. Öll málefnin eru jafn mikilvæg og góð viðbót við umræðuna sem fyrir er.

Varaformaður Kennarasambands Íslands starfar í nánu samstarfi við formann KÍ og leiðir ásamt honum breiðfylkingu kennara í aðildarfélögum Kennarasambandsins. Varaformaður er faglegur leiðtogi sem leitast við að skapa sameiginlega sýn allra félagsmanna og lítur á hópinn sem eina liðsheild. Með valdeflingu kennara, virkri hlustun, nútímalegum nálgunum, opnum og heiðarlegum samskiptum náum við í sameiningu að efla okkar stétt og ná enn meiri árangri.

Hljóti ég ykkar stuðning mun ég leggja áherslu á að bæta starfsumhverfi kennara með fjölbreytileika okkar í huga. Kennarar eru fagmenntaðir sérfræðingar, þeir þróa sig áfram í starfi alla daga í takt við þróun samfélagsins. Það er m.a. hlutverk forystu Kennarasambands Íslands að vinna að því að skapa kennurum meiri sveigjanleika og tækifæri til þess að geta sinnt þeirri þróun á faglegan hátt. Áherslur skólastarfsins hafa tekið miklum breytingum undanfarin ár meðal annars með aukinni tækni og nýju námsmati. Nú horfum við til menntastefnu á Íslandi til ársins 2030 og mikilvægt er að innleiðing hennar gangi farsællega fyrir sig. Til að svo verði þurfum við að sameinast um fagleg vinnubrögð með gæði menntunar og árangur í huga. Þar eru kennarar, með stuðningi forystunnar, í lykil hlutverki.

Allir skólar eru lærdómssamfélag og starfa undir hugmyndafræðinni um menntun fyrir alla. Í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar má sjá að betur hefði mátt styðja við skólastjóra í grunnskólum landsins af hálfu skólaþjónustunnar eða fræðsluyfirvalda þegar innleiðing fór fram í fleiri en færri tilvikum. Mikinn mun mátti sjá milli landshluta, sem er miður, enda eigum við öll að fá sömu þjónustu sama hvar á landinu við erum. Þetta er eitt af því sem ég myndi vilja leggja áherslu á í mínum störfum sem næsti varaformaður KÍ. Við verðum að huga að öllum gerðum skóla sama hver stærð hans er eða staðsetning. Við eigum öll að búa við jafnan rétt og sömu tækifæri.

Árið 2020 voru starfandi 261 leikskóli,173 grunnskólar, 38 framhaldsskólar og 83 tónlistarskólar á landinu öllu. Í öllum þessum skólum starfa kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk sem ein heild á faglegan og lausnamiðaðan hátt og í samstarfi við foreldra og forráðamenn barna og ungmenna ávallt með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Nemendahópurinn er fjölbreyttur og það er í mörg horn að líta, taka þarf mið af þörfum hvers og eins og álag getur verið mikið. Leita þarf leiða til að draga úr álagi og styðja vel við kennara í störfum þeirra. Stytting vinnuvikunnar er mögulega einn liður í því þótt ekki sé enn búið að útfæra hvernig hún verður framkvæmd. Að mínu mati er mikilvægt að kennarar fái sjálfir að koma með hugmyndir að þeirri útfærslu og ég myndi beita mér fyrir því.

Framundan eru lausir kjarasamningar, kjör kennarastéttarinnar er vel undir viðmiðum sambærilegra stétta, þessu verður að gera bót á, það er engin spurning. Við þurfum að fá fleiri faglærða kennara í skólana okkar og finna leiðir til að laða til okkar fleira fólk í þessi frábæru, gefandi og fjölbreyttu störf.

Ég vil sjá þjónandi og dreifða forystuhætti, sterka teymisvinnu, faglega liðsheild og opin samtöl við alla félagsmenn aðildarfélaga Kennarasambands Íslands.

Ég tel mig vera hæfa til þess að gegna starfi varaformanns KÍ þar sem ég hef góða reynslu og menntun sem liggur á breiðu sviði kennslufræðinnar. Ég brenn fyrir málefnum kennarastéttarinnar, full af eldmóð og áhuga.

Tölum saman á mannamáli og látum verkin tala. Styrkur okkar felst í samstöðu stéttarinnar þar sem allar raddir skipta máli.

Ég er með síðu https://styrkjumstodirnar.com/ þar sem má lesa pistla eftir mig fyrir þá sem vilja kynna sér betur mínar áherslur. Einnig má senda á mig spurningar eða vangaveltur á netfangið hjordis1970@gmail.com fyrir þá sem það vilja.

Með von um ykkar stuðning,

Hjördís

Erindi til stéttarfélagsmanna Kennarsambands Íslands

Grein birt á netmiðlinum visir.is laugardaginn 5. desember 2021

Kæri stéttarfélagi,

Menntun skiptir máli fyrir okkur öll og mikilvægt er að vanda valið þegar kemur að því að kjósa þá sem gefa kost á sér sem leiðtogar menntamála. Einstaklinga sem brenna fyrir málefnum menntunar, eru fylgnir sér, búa yfir þrautseigju og seiglu, hlusta á raddir kennara og valdefla þá.

Ég hef boðið mig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands þar sem ég hef trú á sjálfri mér í það starf. Lengi vel hef ég haft brennandi áhuga á menntamálum og tel mig hafa það sem til þarf til að leiða okkar fagstétt ásamt nýkjörnum formanni. Störf með börnum og ungmennum er gefandi og krefjandi í senn en eitt það mikilvægasta sem til er um leið.

Mannauður fagstéttarinnar er mikill, fjölbreyttur og dýrmætur. Huga þarf að starfsumhverfi og gæðum starfsins og hlúa þarf að okkar fólki, styðja það og styrkja. Ánægja í starfi okkar kennara skilar sér í jákvæðari skólabrag og meiri árangri nemenda.

Kennarar þurfa sterkari rödd og þar get ég lagt mitt af mörkum með virkri hlustun um þau málefni sem kennarar brenna fyrir. Samstarf og samtal allra skólastiga og skólagerða er það sem þarf að vera virkt öllum stundum ásamt sveigjanleika og auknum tækifærum m.a. til sí- og endurmenntunar og frekari starfs- og framþróunar.

Kæri stéttarfélagi, ég óska eftir þínu atkvæði í sæti varaformanns Kennarasambands Íslands. Ég heiti þér því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur og vinna ötullega að málefnum stéttarinnar með hagsmuni hvers og eins í huga, vera talsmaður okkar allra, enda lít ég svo á að við séum ein heild.

                  ____________________________________________________

Saman getum við gert svo miklu betur og meira! Látum verkin tala!

Hlýjar kveðjur,

Hjördís

Við erum ein heild, allir kennarar!

Kæru lesarar, hér má sjá framsögu mína og lokaorð á framboðsfundi til varaformannssætis Kennarasambands Íslands sem fram fór þann 30. nóvember síðast liðinn.

Framsaga

Góða kvöldið,

Ég er hingað komin til að bjóða mig fram til varaformanns Kennarasambands Íslands. Ég trúi því að saman getum við gert svo miklu betur og meira. Ég vil leggja mitt af mörkum til starfsins okkar okkur öllum til heilla.

Ég lít á okkur sem eina heild, alla félagsmenn aðildarfélaga KÍ. Við eigum að leggja áherslu á opin og heiðarleg samtöl og samstarf þvert á skólastigin. Hlusta á raddir kennara og valdefla þá. Í stéttinni býr mikill og dýrmætur mannauður.

Ég vil leggja áherslu á gæði starfsins og fjölga leiðum til þess að meta þau. Ekki finna upp hjólið, skoða það sem aðrir eru nú þegar að gera, Ástralar t.d. Skoða m.a. stjórnunar- og kennsluhætti með aukinn árangur í huga.

En til að auka gæðin þarf að huga að ótal þáttum í starfsumhverfi kennara, þar vil ég nefna að:

  • Fjölga þarf fagmenntuðum kennurum
  • Gera starfið eftirsóknarvert og auka virðingu þess í samfélaginu
  • Fjölga stöðugildum náms- og starfsráðgjafa, ráða inn skólafélagsráðgjafa og fjölga öðrum sérfræðingum á öllum skólastigum
  • Auka þarf vægi list- og verkgreina og standa vörð um fagmenntun kennara
  • Lögbinda starfsheiti tónlista- og sérkennara
  • Auka möguleika til sí- og endurmenntunar og efla rannsóknir á svið kennslu

Einnig þarf að efla aðkomu skólaþjónustu en hún er mjög mismunandi á landinu. Við þurfum að styðja og styrkja hvert annað og huga að handleiðslumöguleikum, leggja meiri áherslu á forvarnir og eiga í góðu samstarfi við heimilin.

Það þarf að finna leiðir til að draga úr álagi í starfi, verkefnalistar kennara lengjast og þeir þurfa að hlaupa hraðar.

Ég er stolt af stétt kennara, minni fagstétt! Reynsla mín, hæfni og þekking ætti að nýtast vel í starfi varaformanns KÍ þar sem ég hef starfað á vettvangi leik- og grunnskóla og á framhaldsfræðslustiginu, bæði sem kennari, stjórnandi og náms- og starfsráðgjafi.

Ef þið treystið mér til að leiða þetta ábyrgðarmikla starf í samstarfi við ykkur öll og nýkjörinn formann sambandsins, þá heiti ég ykkur því að ég mun beita mér á faglegan og lausnamiðaðan hátt með hagsmuni okkar og nemenda í huga.

Takk fyrir!

Lokaskilaboð

Kæru félagar,

ég trúi því að það sé gott að fá inn nýtt og ferskt blóð! Við gerum þetta saman því þannig náum við árangri!

Leið mín liggur hingað, í sæti varaformanns KÍ, í gegnum 20 ára starfsreynslu. Ferill minn hefur verið farsæll, fjölbreyttur og skemmtilegur. Ég hef lengi haft áhuga á menntamálum og sá áhugi fer sífellt vaxandi, ég brenn fyrir störfum okkar kennara á mörgum ólíkum sviðum.

Fagmennska okkar þarf að vera í forgrunni og samstarf og samtal gott og náið.

Ég er traust og trú, bý yfir þrautseigju og seiglu!

Kæru félagsmenn,

ég vonast eftir ykkar atkvæði til varaformannssætis KÍ og heiti ykkur því að ég mun leggja mig alla fram fyrir okkur öll!

Ég trúi á sjálfa mig og bið ykkur hin um slíkt hið sama.

Takk fyrir frábært kvöld!

Kynning fyrir komandi varaformannskosningu KÍ

Pistill #1 birtur á vef KÍ og á öllum facebook síðum aðildarfélaga KÍ

Ég heiti Hjördís B. Gestsdóttir og starfa sem náms- og starfsráðgjafi í Langholtsskóla í Reykjavík.

Menntun mín er nokkuð víðtæk, fyrst menntaði ég mig í háriðn og lauk ég meistaraprófi í þeirri grein árið 1996. Ég lauk svo diplóma í leikskólakennarafræðum við KHÍ og fór í beinu framhaldi af því í grunnskólakennarafræðin sem lauk með B.Ed. gráðu 2006. Síðar fékk ég kennsluréttindi á framhaldsskólastigi (háriðn). Ég lauk einnig MA prófi í náms- og starfsráðgjöf fyrir rúmlega 6 árum og M.Ed. prófi í stjórnun og forysta í faglegu lærdómssamfélagi nú í haust.


Ég starfaði við háriðn á árunum 1993 – 2000, fór þá að starfa á Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi til ársins 2004. Ég færði mig þaðan yfir í grunnskólann og starfaði í Kársnesskóla í Kópavogi til ársins 2017 sem umsjónarkennari og verkefnastjóri ýmissa sérverkefna. Frá 2017 – 2019 starfaði ég sem deildarstjóri unglingadeildar í Hraunvallaskóla í Hafnarfirði þar sem ég m.a. stýrði þróunarverkefni ERASMUS+ í samstarfi við skólastjóra og annað fagfólk. Á árunum 2019 – 2021 starfaði ég sem náms- og starfsráðgjafi og meðstjórnandi í Fjölsmiðjunni sem er verkþjálfunar-, framleiðslu- og fræðslusetur fyrir ungt fólk á krossgötum og á aldrinum 16 – 24 ára. Þar leiddi ég m.a. verkefni sem stuðlaði að því að Fjölsmiðjan fékk viðurkenningu Menntmálastofnunar sem formlegur framhaldsfræðsluaðili. Frá því í ágúst á þessu ári hef ég starfað sem náms- og starfsráðgjafi í Langholtsskóla í Reykjavík.


Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram til varaformanns er í stuttu máli sú að ég hef brennandi áhuga á málaflokknum. Ég hef starfað á vettvangi kennslu í rúmlega 20 ár á þremur skólastigum ef svo má segja. Ég hef mikla trú á Kennarasambandinu og því sem það stendur fyrir og hef áhuga á að vera partur af starfinu sem þar fer fram. Ég hef áhuga á að gera starf sambandsins sýnilegra og auka samvinnu og samtal milli fagfélaganna og félagsmanna þeirra eins og kostur er. Málefni kennarastéttarinnar standa mér nærri og eru mér hjartans mál og ég vil geta haft áhrif á framþróun hennar á jákvæðan hátt.


Ef ég verð svo lánsöm að ná kjöri sem varaformaður Kennarasambands Íslands munu áherslur mínar liggja einna helst í því að bæta starfsumhverfi kennara með það fyrir sjónum að auka gæði menntunar og stuðla þannig að bættari líðan og virkara samstarfi.

Áherslurnar liggja m.a. í því að:
• Fjölga faglærðum leikskóla- og grunnskólakennurum – gera starfið eftirsóknarvert og meira aðlaðandi
• Skoða skólastarfið út frá nýjum forsendum t.d. vegna aukins nemendafjölda með annað móðurmál en íslensku
• Styrkja og efla samstarf við Sveitarfélögin/fræðsluyfirvöld/heilsugæsluna/foreldra, hvað varðar lausnir og úrræði í þyngri og flóknari málum nemenda
• Skýra og greina ólíka verkferla þannig að þeir verði skiljanlegir, markvissir og virkir
• Greiða aðgang að ráðgjöf, stuðningi, fræðslu og handleiðslu fyrir kennara og stjórnendur
• Auka vægi list- og verkgreina út frá áherslum Aðalnámskrár
• Efla forvarnir á öllum skólastigum með markvissum hætti
• Gera endurmenntun og rannsóknir á sviði kennslu og kennslufræði að mikilvægum þætti þvert á skólastigin sem eykur samvinnu þeirra á milli
• Finna leiðir til þess að draga úr álagi vegna óvissu og úrræðaleysis
• Fjölga stöðugildi náms- og starfsráðgjafa í grunn- og framhaldsskólum ásamt því
að ráða inn félagsráðgjafa
• Huga að húsnæðismálum, rými, ástandi og uppbyggingu

Eins og hér má sjá þá liggja áherslurnar í mörgum þáttum sem þó liggja saman og styðja hver við annan á einn eða annan hátt. Það þarf alltaf að skoða heildarmyndina og nauðsynlegt að byrja á grunninum og styrkja stoðirnar. Það segir sig sjálft að það getur reynst þrautinni þyngri að byggja ofan á grunn sem ekki er nægilega sterkur og fastur fyrir. Það er komið nóg af því að vera að plástra alla hluti og reyna að leysa mál með bráðabirgða reddingum hér og þar sem enda svo oftast á því að vera til frambúðar.
Kennarar og nemendur eiga ekki að þurfa að sætta sig við það að vera settir sí og æ aftast í röðina. Kennarastéttin er mikilvæg starfsstétt og mannauður hennar er ómetanlegur, því er svo mikilvægt að hlúa vel að honum og styrkja hvern og einn á faglegan og uppbyggjandi hátt.

Við megum ekki gleyma því að í skólum landsins er unnið mikilvægt og metnaðarfullt starf þar sem stefna skólanna er ávallt með hagsmuni nemenda í huga. Sníða þarf stakk eftir vexti til þess að svigrúm skapist til áframhaldandi jákvæðrar þróunar.

Þegar litið er til menntastefnu til ársins 2030 sem lögð var fram á
Alþingi í nóvember 2020 má sjá fjölbreyttar tillögur og áætlanir sem unnar voru út frá
yfirgripsmikilli undirbúningsvinnu og samráði við skólasamfélagið og aðra hagaðila.
Stoðir menntastefnunnar eru eftirfarandi:
• Jöfn tækifæri fyrir alla
• kennsla í fremstu röð
• hæfni fyrir framtíðina
• vellíðan í öndvegi
• gæði í forgrunni.
Markmið menntastefnunnar er að „veita framúrskarandi menntun í umhverfi þar sem allir geta lært og allir skipta máli“. Leiðarljós stefnunnar eru: Hamingja, þekking, hugrekki og þrautsegja.
Þetta eru metnaðarfull markmið og stoðir sem hér eru settar fram, sem ég styð heilshugar, en ég set samt spurningu við hversu raunhæfar þær eru miðað við stöðuna sem er uppi í dag, þá sér í lagi í leikskólunum?

Það er kominn tími til að snúa saman bökum og setja fram skýra mynd af stöðunni eins og hún er núna. Horfa þarf fram á veginn, skoða allt það góða starf sem nú þegar fer fram í skólum landsins og draga fram
í dagsljósið það sem þarf að bæta. Það þarf að hætta að tala og skrifa um það, nú er komið að því að framkvæma. Hér vil ég láta til mín taka eins vel og mikið og mér er unnt okkur öllum, kennurum og nemendum til hagsmuna.


Við gerum þetta saman,
Hjördís B. Gestsdóttir